140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki tókst þingmanninum að sannfæra mig um þessa ágætu tillögu sína um að 15% geti lagt fram tillögu um vantraust sem færi þá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi út í ákvæði í tillögu stjórnlagaráðs um vantraust á forsætisráðherra, ég man ekki greinarnúmerið nákvæmlega núna, en komi fram tillaga um vantraust þá skuli tilnefna annan í staðinn, þ.e. að ekki er hægt að leggja fram vantraust án þess að tilnefna einhvern annan. Þarna tel ég að verið sé að ganga mjög á möguleika og rétt stjórnarandstöðu til að kanna eða láta á það reyna hvort ríkisstjórn hafi í raun meiri hluta á hverjum tíma. Við sjáum það alveg í hendi okkar að margir flokkar í stjórnarandstöðu geta að sjálfsögðu lent í miklum vandræðum með að koma sér saman um eftirmann ef þeir telja sig hafa meiri hluta til þess að velta stjórninni með einhverjum hætti. Það er hreinlegra að hafa þetta eins og er í dag að annaðhvort nýtur ríkisstjórnin eða ráðherrar hennar trausts eða ekki og þá þarf einfaldlega að skipa eða mynda nýja ríkisstjórn eða boða til kosninga ef ekki er slíkur meiri hluti fyrir hendi.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um 34. gr. í tillögum stjórnlagaráðs þar sem fjallað er um náttúruauðlindir, að þær séu ævarandi eign þjóðarinnar nema náttúruauðlindir sem skilgreindar eru í einkaeigu, ef ég man rétt. Það sem ég velti fyrir mér, og spurning mín á kannski rætur að rekja til tillögu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram um skilgreiningu náttúruauðlinda. Er ekki full þörf á að farið verði í það að skilgreina og taka saman hvað það er sem við Íslendingar lítum á sem náttúruauðlindir?