140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi vantraust á ríkisstjórn eða forsætisráðherra þá er það vissulega mikil kvöð að þurfa að tilnefna nýjan forsætisráðherra því að hann gæti verið jafnvel sá sami. Segjum að stjórnarandstaðan og sá flokkur sem tilnefnir forsætisráðherrann nái saman um og vilji fella hinn stjórnarflokkinn út. Þá getur komið upp sú undarlega staða að menn leggi fram vantraust á ríkisstjórnina, forsætisráðherra, en hann yrði svo aftur forsætisráðherra. Ég tel að þetta sé atriði sem við alþingismenn eigum eftir að ræða miklu, miklu betur. Við verðum að hanna og setja upp reglur sem eru þannig að helst komi aldrei til stjórnarkreppu, þ.e. stjórnarkreppu sem er það langvinn og lamandi að hún geti skaðað þjóðlífið mjög verulega. Þetta er úrlausnarefni sem við verðum að finna lausn á.

Varðandi skilgreiningu auðlinda, ég hefði mjög gaman af því vegna þess að allar þær auðlindir sem við höfum í dag voru ekki auðlindir fyrir 200 árum. Sjávarútvegurinn var ekki auðlind, hann kostaði mannslíf á hverju einasta ári. Árnar voru ekki auðlind vegna þess að þær voru skaðvaldar í sveitum, einangruðu sveitir, menn komust ekki yfir þær og misstu hesta og hunda og menn drukknuðu í ám.

Auðlindin verður ekki auðlind fyrr en til kemur mannauðurinn sem breytir til dæmis jökulánum í orku, sem breytir skipunum þannig að þau verða örugg. Og svo koma nýjar auðlindir eins og tíðnisvið rafsegulbylgna, sem símarnir okkar fá boð um, og á eftir að verða mikil auðlind í framtíðinni, mikil. Svo koma hlutir eins og losunarkvótar og annað slíkt. Ég sé ekki endann á auðlindunum en allt tengist þetta mannauði.