140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágæta og greinargóða yfirferð. Af öllum hennar málflutningi má ráða að hún lætur sig mjög þetta mál varða, enda má segja að þingmönnum sé skylt að gera það vegna þess að hér er um að ræða grundvallarlög okkar samfélags. Ég verð að segja eins og er að ég gef lítið fyrir þær upphrópanir sem heyrast næstum daglega nú orðið um að um sé að ræða einhvers konar málþófstilraunir því að í þeirri ræðu sem hv. þingmaður flutti áðan voru mjög mikilvæg skilaboð, athugasemdir sem skipta máli fyrir þessa umræðu.

Ég vil sérstaklega inna þingmanninn eftir einu: Er hv. þingmaður mér sammála um að með því að uppleggið í þeim stjórnarskrárdrögum sem þjóðinni er ætlað að taka afstöðu til — eða kannski ekki upplegg heldur mjög víða er einmitt kveðið á um að ýmis réttindi skuli síðan tryggð með lögum — að ef niðurstaðan verður að við eigum að byggja stjórnarskrána okkar upp með þessum hætti sé grafið undan öryggi borgaranna? Má ekki telja líklegt að sú sérfræðinefnd sem nú þegar er talað um að eigi að taka til starfa til þess að reyna að sníða verstu agnúana af þessum hugmyndum muni einmitt hnýta í þessa þætti? Það er ógjörningur fyrir borgarana að átta sig á hvað stjórnarskráin þýðir nákvæmlega ef það er endalaust verið að vísa til almennra laga um (Forseti hringir.) þau réttindi sem þar á að tryggja.