140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Jú, það er þetta sem ég hef áhyggjur af í stjórnarskrárdrögunum, þessi almenna tilvísun í að ákveðin réttindi skuli tryggð með almennum lögum, þá lögum sem hafa ekki tekið gildi og ekki er farið að huga einu sinni að í frumvarpsdrögum, enda málið ekki orðið nógu þroskað. Stjórnarskrá hvers ríkis er æðstu lög þess. Stjórnarskrárvarinn réttur er mun sterkari en réttur fólks sem skapast með almennum lögum. Þess vegna er ég svo undrandi á því stjórnarskipunarframsali sem er í tillögunum, beinlínis niður í almenna löggjöf. Ég hélt að meiningin með því að endurskoða stjórnarskrána væri að tryggja rétt borgaranna enn frekar en ekki veikja þann rétt eins og hér er lagt til.

Svo getum við tekið málið enn þá lengra. Við höfum orðið vör við það í tíð þessarar ríkisstjórnar að þegar verið er að setja almenn lög á þinginu er í þeim frumvörpum sem verða síðan að lögum mikið framsal löggjafarvalds til framkvæmdarvaldsins með reglugerðarheimildum sem raunverulega eru orðnar í hverju einasta frumvarpi sem kemur fyrir þingið. Við getum alveg horft fram á það að stjórnarskipunarvaldið verði framselt inn í almenna löggjöf og almenna löggjöfin flytur svo stjórnarskipunarvaldið inn í reglugerðarfargan miðað við það sem við erum búin að horfa á hér síðan þessi ríkisstjórn tók við. Því er ég algjörlega mótfallin og ætla að ítreka að ég (Forseti hringir.) er þeirrar skoðunar að það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskrá (Forseti hringir.) vegna þess að þetta eru grunnlögin okkar.