140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að það á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni. Breytingar á stjórnarskrá eiga að fara fram í mikilli og víðtækri sátt. Þannig hefur tekist að standa að málum. Ég bendi þingmanninum á dæmi sem ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður þekkir mjög vel. Þannig var staðið að breytingum á mannréttindakaflanum sem er gríðarlega mikilvægur kafli, rétt eins og reyndar allir kaflar stjórnarskrárinnar, en þannig var staðið að breytingum á þeim kafla á árinu 1995 í almennri sátt í kjölfarið á mjög mikilli og vel undirbúinni vinnu.

Það sem ég hef áhyggjur af, virðulegi forseti, og ég vil kanna hvort hv. þingmaður er mér ekki sammála um það, er að með því að snúa sér til þjóðarinnar með drög, ef svo má segja, að stjórnarskrá og segja: „Takið afstöðu með eða á móti þessum texta“ en viðurkenna í hinu orðinu að ýmis lagatæknileg atriði eigi eftir að sníða af sé verið að afvegaleiða þjóðina og segja í öðru orðinu: „Hér er um að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu“ og meina í hinu ekkert með því.

Ég vil einnig inna hv. þingmann eftir því hvort hún sé ekki líka sammála mér um að það sé ótækt að koma til þings með þingsályktunartillögu eins og þessa og ætlast til þess að þingið taki afstöðu með eða á móti henni, m.a. vegna þess að við vitum ekki hvernig þetta mun líta út og, eins og hv. þingmaður hefur reyndar ítrekað bent á, um er að ræða spurningalista sem eru unnir upp úr stefnuskrám þeirra flokka sem eru (Forseti hringir.) við völd og í meiri hluta í þinginu.