140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún velti fyrir sér hlutverki stjórnarskrárinnar en hún virðist ganga út frá því að ríkið sé eitthvað sem sé fyrir fram gefið. Ég vil spyrja hv. þingmann: Til hvers er ríkið?

Margir hafa talað um lágmarksríki, ríki sem sinni löggæslu, hugsanlega heilsuþjónustu en að minnsta kosti löggæslu og til hvers er löggæslan? Hún verndar eignarréttinn, hún tryggir að menn verði ekki beittir ofbeldi, hún tryggir trúfrelsi og annað slíkt þannig að í rauninni er ríkið til til að gæta mannréttinda. Ég vil því horfa á það þannig að stjórnarskráin eigi að hverfast um mannréttindi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því að stjórnarskráin eigi að hverfast um mannréttindi, og síðan stofnum við eða höfum við ríki til að framfylgja mannréttindunum.

Mannréttindi skiptast í tvo flokka, þ.e. annars vegar mannréttindi sem vernda mig fyrir öðru fólki, að því gefnu að ríkið sé ekki til, þ.e. að ég sé ekki rændur, ég sé ekki barinn o.s.frv. Hins vegar eru það mannréttindi þar sem ég á kröfu á annað fólk til framfærslu, t.d. má nefna rétt barna til framfærslu sem er fyrst og fremst krafa á foreldra þeirra, og rétt aldraðra og öryrkja sem er krafa á samfélagið. Ég vil að menn líti fyrst og fremst á mannréttindin og síðan hvernig við komum þeim í framkvæmd. Til þess stofnum við ríki og til að vernda borgarann fyrir ofurvaldi ríkisins þrískiptum við því í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Mér finnst að menn þurfi að hafa þetta algjörlega á hreinu.

Ég komst ekki í það, frú forseti, að spyrja hv. þingmann um breytingarnar en ég kem að því í seinna andsvari.