140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það ætti að vera óþarfi að spyrja þessara spurninga en umræðan hefur eðli máls samkvæmt farið inn á þær brautir vegna þess að niðurstöður í tillögum stjórnlagaráðs, og sérstaklega greinargerðin sem fylgir með, eru allsendis ófullnægjandi.

Það kom einmitt fram á þeim tveimur ráðstefnum sem ég nefndi í ræðu minni í gær. Annars vegar er ég að tala um ráðstefnu hjá Landssamtökum landeigenda þar sem fjölmargir lögspekingar á þessu sviði útskýrðu að eins og greinin hljómaði í tillögunum væri í sjálfu sér hægt að skilja hana á þann veg að engin breyting væri á núgildandi stjórnarskrá, en þegar menn færu aftur á móti að skoða greinargerðina kæmi upp fullt af álitaefnum og óljóst væri hvað verið væri að meina. Greinargerðin væri þar af leiðandi ónothæf sem skýringargagn og þess vegna þyrfti að fara í frekari vinnu við hana.

Þá vaknar sú spurning enn á ný hvort hægt sé að spyrja (Forseti hringir.) slíkra spurninga án þess að þær séu auðskiljanlegar og jafnvel án þess að þær séu framkvæmanlegar.