140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er hlutunum svolítið snúið á haus. Ég er mjög þeirrar skoðunar að ekki eigi að setja inn ákvæði um þjóðareign á auðlindum og hef fært fyrir því rök. Ég hef bent á að það jafngildi því að um sé að ræða ríkiseign enda hefur það komið fram í málflutningi þeirra sem hafa lagt þetta til. Ég er að segja að ef það er niðurstaðan hjá meiri hluta þingsins, að fara eigi þá leið að leggja til í stjórnarskrá að náttúruauðlindir verði í þjóðareign, jafngildir það því og þýðir að um sé að ræða ríkiseign. Þá segi ég: Þá er betra, allra hluta vegna, að það standi hvað það þýðir. Hugtakið þjóðareign er merkingarlaust en þýðir í raun ríkiseign, með öðrum orðum dulbúin ríkiseign. Ég er á móti því, ég hef verið á móti því og ég mun verða á móti því þannig að ég held að áhyggjur hv. þingmanns af því að ég sé að mæla með þessu (Forseti hringir.) séu óþarfar.