140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um þjóðareign er mikilvæg því að við komumst alltaf betur og betur að því að mjög mikilvægt er að skilgreina hugtakið þannig að sem flestir séu sáttir við þá skilgreiningu eða átti sig á henni. Ég vil í því sambandi benda hv. þingmanni og þingmönnum á að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram tillögu á þingi um að farið verði í það að skilgreina náttúruauðlindir. Það mundi eflaust hjálpa til við að finna lausn á skilgreiningu hugtaksins þjóðareign.

Auðlindir geta verið margs konar og hefur ýmislegt komið fram í umræðum um það. Í gær var til dæmis nefnt að tíðnisvið geti verið auðlind. Svo vitum við vitanlega að vindurinn getur verið auðlind. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna orða hans í lok andsvarsins að hann væri á móti því að í stjórnarskrá væri kveðið á um að auðlindir væru þjóðareign, í fyrsta lagi hvort þingmaðurinn sé að segja að vindurinn og tíðnisviðin geti verið einkaeign og í öðru lagi hvort annað orðalag, eins og sameign þjóðarinnar, breyti einhverju um þessa túlkun. Ég er þeirrar skoðunar, þannig að það komi fram, að sé unnt að finna skilgreiningu á þessu hugtaki sem er þokkalega augljós, eigi skilyrðislaust að kveða á um þetta í stjórnarskrá, um ákveðnar auðlindir sem við eigum öll saman.

Mig langar sem sagt að spyrja hv. þingmann þessara spurninga: Getur einkaréttur verið á vindi eða tíðnisviðum? Getur (Forseti hringir.) annað orðalag komið í stað þjóðareignar?