140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:23]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt eins og ekki getur verið einkaeign á vindi getur heldur ekki orðið ríkiseign á vindi. Vindurinn, ef svo má að orði komast, á sig sjálfur, ef menn vilja eigna honum einhverja eiginleika. Það er munur á því hvort um er að ræða auðlind sem orðin er til vegna nýtingar ríkisins eða einstaklinga. Sem dæmi um nýtingu ríkisins eru olíulindir Norðmanna og á 20. öldinni eru það fyrst og fremst opinberir aðilar sem hafa verið í forustu fyrir nýtingu orkuauðlinda á Íslandi. Það er einmitt nýtingarsagan sem er lykilatriði þegar kemur að því hver á auðlindina.

Þar sem um er að ræða nýtingarsögu einstaklinga sem hafa lagt fjármuni og tíma í að þróa auðlindina og gera hana að verðmæti tel ég að nýtingarrétturinn og eignarhaldið eigi að vera hjá einstaklingunum. Ég tel til dæmis að jarðir bænda eigi að vera í eigu þeirra, en ég bendi hv. þingmanni á að deilan um það hvort ekki sé eðlilegt að þjóðin eigi allt land og hversu eðlilegt geti talist að einstaklingar eigi land, er mörg hundruð ára gömul.

Þegar kemur að því að skilgreina auðlind er meira en að segja það að gera það. Það er erfitt að sjá fyrir nýjar auðlindir og þær finnast einmitt vegna þess að í flestum tilfellum eru það einstaklingar sem stýra slíku, þróa og þroska slíkar auðlindir og gera þær verðmætar, þótt auðvitað séu til dæmi um að ríkisvaldið geri það. Samfélagið á svo mikið undir því, sérstaklega það íslenska, að hafa allan hvata til að gera þetta. Að sjálfsögðu hefur íslenska ríkið síðan ákveðinn yfirráðarétt, rétt til að setja lög um nýtingu, rétt til að hlutast til um nýtingu auðlinda til að tryggja sjálfbærni þeirra (Forseti hringir.) o.s.frv., þannig að fullveldisréttur ríkisins er til staðar. En það er skynsamlegra að eignarrétturinn sé (Forseti hringir.) í höndum einstaklinga þar sem nýtingarsagan gefru til kynna að svo eigi að vera.