140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er augljóst til dæmis að jarðnæði er takmörkuð auðlind. Ég held að ekki sé hægt að nota þá skilgreiningu að um sé að ræða takmarkaða auðlind og þar með verði hún ríkiseign eða þjóðareign. Ég held að nálgast verði þetta með öðrum hætti. Ég hef stuðst við hugmyndir sem meðal annars komu fram hjá heimspekingnum John Locke, um að með því að einstaklingurinn leggur fram vinnu sína og tekur áhættu í því að nýta auðlindir, myndist þar með eignarréttur á grundvelli hefðar. Ég tel að það sé mjög skynsamleg nálgun. Velferð þjóða og auðlegð þeirra byggir á því að auðlindir séu nýttar skynsamlega og til verði auður sem síðan dreifist um samfélagið. Ég held að sagan sýni að þau samfélög sem lengst hafa gengið í því að hafa sameign á auðlindum eru ekki þau þjóðfélög sem við (Forseti hringir.) köllum opin, lýðræðisleg og frjáls. Það eru ekki þjóðfélög sem voru þekkt fyrir mikla auðlegð, svo mikið er víst, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.