140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að stjórnlagaráð geri tilraun til þess að skýra þessa þjóðréttarsamninga og framsal ríkisvalds í 111. gr. þar sem talað er um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lít svo á að þar eigi að vera einhvers konar ventill á þessar vangaveltur mínar og þingmannsins. Hins vegar finnst mér að það þurfi að skýra aðeins þarna á milli, það er praktískt atriði til að engin hætta sé á að þarna verði einhverjar andstæður. Hvað um það, mig langar að spyrja hv. þingmann út í eina grein í tillögum stjórnlagaráðs sem er augljóslega góð hugsun að baki. Við hv. þingmaður getum örugglega verið sammála um að þetta eigi allt rétt á sér. En er þetta framkvæmanlegt og á þetta að vera orðað svona í stjórnarskrá? Ég er að tala um 23. gr., um heilbrigðisþjónustu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.“

Hvað þýðir þetta? Svo segir í sömu grein, með leyfi forseta:

„Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Hvað er viðeigandi heilbrigðisþjónusta á Patreksfirði, svo ég nefni dæmi, miðað við Akureyri eða Kópavog? Hvað er líkamleg heilsa að hæsta marki sem unnt er? Er búið að setja einhvern mælikvarða á það? Það er svona orðalag sem ég hygg að allir geti verið sammála um en fær tæpast staðist í stjórnarskrá. Þetta er almennt orðað, vangaveltur sem lýsa góðum hugsunum en ég held að sé hreinlega vonlaust að framkvæma.