140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það væri synd ef það mál sem hér er til umræðu, þ.e. breytingar á stjórnarskránni, dagaði uppi fyrir þinglok áður en Alþingi kæmist að einhverri niðurstöðu í því efni að gera breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Það yrði hins vegar í mínum huga meira tjón af því verklagi að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að þær yrðu skoðaðar og ræddar til hlítar, bæði hér á Alþingi og úti í fræðasamfélaginu.

Ég held að öllum sé ljóst að eins og málið er statt í dag er það í miðri forarvilpu íslenskra stjórnmála eins og hún birtist almenningi um þessar mundir. Við berum að sjálfsögðu öll ábyrgð á því. Ég dreg hins vegar enga dul á það að ábyrgðin er mest hjá þeim sem stýrir verkum, þ.e. lýðræðislega kjörnum meiri hluta á Alþingi, og hans er ábyrgðin í því að leiða mál fram með þeim hætti að þokkaleg sátt geti ríkt um það. Það er augljóst að engin sátt er um það verklag sem viðhaft er í þessu efni eins og hér hefur rækilega komið fram.

Ég hefði álitið í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er hvort ekki væri flötur á því að menn kæmu sér saman um að Alþingi afgreiddi með einhverjum hætti brýnustu mál sem lægju fyrir í þessu efni með það í huga að að öllu óbreyttu yrði kosið um breytingar eða nýja stjórnarskrá jafnhliða þingkosningum á næsta ári, en öllum má ljóst vera að tíminn sem til stefnu er er mjög knappur, ekki síst ef við horfum til þess að þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, eins og þingsályktunartillagan kveður á um, á að fara fram í síðasta lagi 20. október í haust. Í annan stað liggur fyrir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur skipað til verka ákveðinn hóp sérfræðinga sem ætlað er að rýna og endurgera með einhverjum óskilgreindum hætti tillögur stjórnlagaráðs þannig að fyrir liggur vilji meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þá veru, og staðfesting á, að gera þurfi breytingar á tillögum stjórnlagaráðsins. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvenær þessi sérfræðihópur á að ljúka vinnu.

Að því gefnu að þetta gerist allt í október eða nóvember í haust, að það gangi eftir, þó að fyrri vinna bendi hvorki til þess né gefi tilefni til bjartsýni um það, er það álit mitt að tíminn til þess að fullvinna það sem fram kemur í haust og kynna það rækilega fyrir almenningi í aðdraganda kosninga er að verða mjög knappur. Það er alveg ljóst að ágæt samstaða er um mörg meginatriði, meðal annars í því efni sem ætlunin er að spyrja út í. Það er hægt að horfa varðandi auðlindamálið allt aftur til auðlindanefndarinnar sem Jóhannes Nordal stýrði á sínum tíma þar sem settar voru fram ákveðnar hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar í því efni, það var samstaða þingflokka um þau mál. Boðið var upp á svipaða lausn 2005 og einhverjir flokkar voru búnir að koma sér saman um texta, meira að segja um auðlindaákvæðið, 2007.

Við erum örugglega öll sammála um, og það hefur margoft verið undirstrikað í þessari umræðu, að setja þarf í stjórnarskrá ákvæðið um málsmeðferð og þjóðaratkvæði. Það er verið að spyrja um þetta hér. Ég dreg hins vegar í efa hversu brýnt það er að setja í stjórnarskrá ný ákvæði um persónukjör í kosningum eða um hugsanlega jöfnun atkvæðisréttar og fleira mætti telja og tel að við ættum að einbeita okkur að því að reyna að ná samkomulagi um að áfangaskipta þessari vinnu með það í huga að ljúka í tíma þeim ákvæðum sem þokkaleg samstaða er um. Það er ekki boðlegt að vinna þetta með þessum hætti, það er ekkert sem knýr á um það í ljósi aðstæðna að ekki sé hægt að vinna þetta eins og ég nefndi og taka þá síðari áfangann til afgreiðslu jafnhliða og fyrir forsetakosningar 2016.

Þetta væri vel hægt ef boðið væri upp á þetta en því miður virðist verklagið eða verkstjórnin vera með þeim hætti að halda þessu í þessum hnút. Af því leiðir að umræðan um þetta verður þá á allan hátt heldur nöturleg, því miður. Svona til að létta þetta mætti alveg skjóta því hér inn að jafnhliða kosningum um stjórnarskrána 2013 mætti hafa þjóðaratkvæði um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, eins og margir hafa tekið undir, til að létta á þeim þrýstingi sem um það mál stendur um þessar mundir.