140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi hér jöfnun atkvæðisréttarins og í 39. gr. tillagna stjórnlagaráðs er kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli vega jafnt. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji mjög einfalt að breyta þeirri skiptingu sem er í dag og þeim mismun sem er milli landsmanna þegar kemur að því að greiða atkvæði. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að mörgum öðrum gæðum er misskipt, þar á meðal útgjöldum ríkisins. Ég hef nefnt nokkrum sinnum þá staðreynd að af hverjum þrem krónum sem landsbyggðin framleiðir verða tvær eftir á höfuðborgarsvæðinu. Er þingmaðurinn að meina að það sé sjálfsagt mál að jafna atkvæðavægið án þess að einhvers konar önnur jöfnun komi á móti?

Það er ástæða fyrir því, eins og við vitum og þekkjum flest hér, að misvægi er milli atkvæða. Sú ástæða kemur ekkert bara úr loftinu eða vegna þess að menn eru svo vondir, eitthvað svoleiðis. Hún er vegna þess að það er misvægi í svo mörgu öðru milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Það er mjög mikilvægt að við höfum það nokkurn veginn á hreinu hvernig menn sjá þetta fyrir sér.

Ég get hins vegar tekið undir það að ef meining manna er sú að þegar búið verður að jafna gæðin eða jafna möguleikana og tækifærin sé sjálfsagt að atkvæði vegi jafnt. Mér finnst, svo það sé bara sagt í dag, alveg sjálfsagt að misvægi sé milli atkvæða og jafnvel finnst mér að það ætti að vera meira ef eitthvað er miðað við hvernig stutt er við vöxt hér á höfuðborgarsvæðinu miðað við á landsbyggðinni.