140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi þessa spurning hv. þingmanns var ég að vekja athygli á því að sumt í því sem verið er að vinna með er þess eðlis að það verður ekki nýtt í praxís fyrir næstu alþingiskosningar, 2013. Það eru að minnsta kosti tvær spurningar í þessari breytingartillögu sem eru þess eðlis að þar eru atriði sem munu ekki koma til framkvæmda í kosningum til Alþingis, að öllu eðlilegu 2013. Annað atriðið var það ákvæði sem verið er að spyrja út í í spurningu 5 sem lýtur að jöfnun atkvæðisréttarins.

Hitt atriðið eru hugsanlegar breytingar á kjöri til Alþingis. Þar er verið að varpa upp spurningu um persónukjörið. Þarna eru inni tvö atriði sem í mínum huga eru þess eðlis að það er ekkert sem knýr endilega á um það, í þeirri stöðu sem málið er komið í, í þessari klemmu, að menn séu að berjast um það til þess að ná því fram í tíma. Það er í mínum huga eðlilegt, ef við viljum leysa málið úr þeirri stöðu sem það er í og reyna að áfangaskipta því, að taka út þannig atriði og gefa okkur einfaldlega lengri tíma til að finna á því einhverja sameiginlega niðurstöðu. Þetta er mál, ef ég tala um þessa spurningu um jöfnun atkvæðaréttar, sem þarf miklu ítarlegri umræðu milli þingmanna en við höfum hingað til tekið. Mjög skiptar skoðanir eru um þetta efni og ég hefði álitið að það væri betra fyrir okkur að takast á um einhverja ákveðna tillögu í því efni frekar en að fabúlera þetta út frá þeirri spurningu sem hér liggur fyrir.

Það eru fleiri þættir hér í spurningavagninum svokallaða sem mætti ræða en ég kem því ekki að í þessum fyrri hluta andsvars.