140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Áhugaverð umræða spannst í andsvörum milli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um gæði og skiptingu veiðigjalda til sveitarfélaga. Mig langar því að leita álits hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sem hefur eins og sá sem hér stendur fortíð úr sveitarstjórnargeiranum. Í núverandi stjórnarskrá er afar stutt lagagrein, 78. gr., sem fjallar um sveitarfélögin. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.“

Þetta eru ákaflega stuttar greinar og síðan hefur þetta verið útfært í lögum. Í tillögum stjórnlagaráðs eru aftur á móti fjórar greinar og sérkafli um þetta. Það að hafður sé um þetta sérkafli sýnir mikilvægi sveitarstjórnarstigsins og er þá jákvætt, en það hefur verið gagnrýnt af þeim sem hafa skoðað þetta, til að mynda á ráðstefnu okkar framsóknarmanna um sveitarstjórnarstigið, að þær greinar sem þar eru settar segi í raun ekkert meira en þessar tvær greinar sem eru í núverandi stjórnarskrá.

Í sambandi við þá umræðu sem spannst til að mynda um skiptingu veiðileyfagjaldsins stendur eftir sem áður í tillögum stjórnlagaráðs að tekjustofnar verði ákveðnir með lögum, alveg eins og er í dag, og það breytist í raun ekkert við þetta. Síðan er aðeins fjallað um samráð og nálægðarreglu sem vissulega stendur ekki þarna inni en varðandi hana er til dæmis sagt að kveðið skuli á um hana í lögum. Um samráðsskylduna, sem ég veit að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur jafnvel farið fram á að sett yrði í lög, stendur hins vegar ekkert. Það er spurning hvort hún hefði ekki átt að fara inn í stjórnarskrá en þar stendur ekkert um hana. Það stendur bara: Samráð skal haft.

Nú spyr ég hvort hv. þingmanni (Forseti hringir.) finnist þessi regla skýr eða hvort hann hefði viljað fara einhverja aðra leið.