140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það og vitna þá til þeirra tillagna sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram, væntanlega að gefnu því tilefni að þær spurningar sem komu fram hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar varpa ekki skýru ljósi á alla þætti. Hann bar því fram þær spurningar hvort ákvæði í stjórnarskrá þyrftu ekki bæði að vera auðskiljanleg og framkvæmanleg.

Það ákvæði sem ég vitnaði til, sem sagt núverandi 78. gr. er varðar sveitarfélögin, og þær greinar sem síðan er fjallað um í tillögum stjórnlagaráðs varpa ekki skýrara ljósi á málið og það vantar dýpri og efnislegri umræðu um málið. Við höfum einmitt gagnrýnt að þar vanti meiri efnisumræðu um þessa þætti og spurt hvort það eigi að skýra þetta. Ég spyr þá hv. þingmann hvort hann teldi að það mundi hjálpa til við málið ef fram kæmu spurningar á þennan spurningavagn sem meiningin er að senda út til þjóðarinnar, til að leita álits, um þessa þætti, þ.e. hvort binda eigi í stjórnarskrá ákveðna tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég efast reyndar um að það sé hægt vegna þess að ég tel að stjórnarskráin eigi að vera einföld, auðskiljanleg og framkvæmanleg.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann að öðru. Í meirihlutaálitinu um þingsályktunartillöguna sem hv. þingmaður nefndi í lok ræðu sinnar, um hvort við ættum að spyrja þjóðina hvort draga ætti umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka, segir að spurningin sé eðlisólíkt og ótengt málefni.

Nú eru komnar fram yfir 20 breytingartillögur og ég hef ekki heyrt nokkurn einasta mann úr meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fjalla um þær í ræðustól Alþingis. Ég varpaði þessu fram hér í gær, þ.e. hvort það sama gilti um þær. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji þær eðlisólíkar og ótengdar og eigi ekki að fara með spurningavagninum.