140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Nei, í grunninn tel ég svo ekki vera, einfaldlega vegna þess að í alllangan tíma hefur verið rætt um það, og ég álít almennt góða samstöðu um það á þinginu, að setja þurfi í stjórnarskrá ákvæði um málsmeðferð og þjóðaratkvæði um það sem lýtur að aðild Íslands að einhvers konar alþjóðasamtökum. Allir eru sammála um að þess þurfi og ef við erum sammála um að það þurfi ákvæði í stjórnarskrána um þessa þætti finnst mér eðlilegt, ef vilji meiri hluta þingsins stendur til að gera þessa skoðanakönnun, að taka inn í hana spurningar sem snerta hin ólíku og mörgu svið sem undir þetta mál heyra. Þau eru alveg ótrúlega mörg.

Mér finnst það dálítið langt til seilst, ef vilji stendur til þess að gera þessa könnun, að ýta þá út spurningu sem þessari á þeirri forsendu að hún sé eðlisólík. Flestir sem um þessi mál hafa fjallað telja að ákvæðin í stjórnarskránni um aðild Íslands að alþjóðasamtökum séu óskýr að því marki að leggja mat á það að Ísland þurfi að deila fullveldisákvörðun með öðrum þjóðum. Ég svara þessari spurningu svona.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þau ákvæði sem lúta að samskiptum ríkis og sveitarfélaga eiga fremur að vera til einföldunar og skýrari en að vera þvælin og illskiljanleg.