140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að fara aðeins í samskipti við hv. þm. Pétur H. Blöndal út af því sem hann ræddi í fyrri hluta ræðu sinnar um þann misskilning ýmissa að breyta þurfi stjórnarskránni vegna hrunsins og að einhverjir teldu hugsanlega að hún hefði eitthvað blandast inn í það. Hv. þingmaður minntist einmitt á þingmenn Hreyfingarinnar sem hafa talað dálítið í þá átt að það sé eitthvert forgangsatriði að breyta stjórnarskránni og að þau hafi verið kosin hingað inn eftir búsáhaldabyltinguna svokölluðu til þess að breyta stjórnarskránni.

Það kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og í skýrslu þingmannanefndarinnar — ég er hérna með skýrsluna þykku sem var samþykkt 63:0, ég sat í þeirri nefnd og man ekki til þess að það hefði verið fjallað um það á fundum nefndarinnar að einhver ákvæði í stjórnarskránni hefðu valdið því að hér varð hrun, heldur var alveg skýrt á hvers ábyrgð það varð. Ég sé hvorki ákvæði í núverandi stjórnarskrá né heldur þeirri tillögu sem kemur frá stjórnlagaráðinu, og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til að þjóðin verði spurð hvort eigi að liggja sem grundvallarplagg að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, neitt sem muni breyta þeim þætti. Það er mitt mat og því vil ég spyrja hv. þingmann hvernig við getum breytt þessari umræðu sem er í samfélaginu. Þá vísa ég til fjöldapósta sem hv. þingmaður nefndi þar sem sá misskilningur virðist uppi að þetta sé forgangsatriði til að koma í veg fyrir að hér verði nýtt hrun. Það er svo allt önnur umræða hvort við viljum breyta stjórnarskránni og það sé þörf á því að fara í ákveðna þætti hennar en ekki á grundvelli þess sem hér gerðist haustið 2008.