140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að ferlið hefur verið klúður, það má orða það þannig. Ég tók þátt í því að samþykkja að efnt yrði stjórnlagaþings. Það kom margt fram í þeim kosningum sem sýndi að aðferðafræðin og annað gekk hreinlega ekki upp. Það sást til dæmis hvernig dreifing þeirra sem voru kjörnir á þetta þing var. Þegar Alþingi ákvað að taka upp á því að búa til stjórnlagaráð var ekki lengur hægt að fylgja því ferli sem lagt var af stað með. Síðan hefur þetta verið ein sorgarsaga og afrakstur stjórnlagaráðs er mjög umdeilanlegur eins og hér hefur komið fram.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að þær spurningar sem fylgja könnuninni um stjórnlagaráðstillögurnar eigi rætur sínar í niðurstöðum þjóðfundar. Nú má margt segja um þjóðfundinn og raunar flest gott, það var mjög skemmtilegt að vera þar, þetta var tilraun sem gekk að flestu leyti upp. Ýmsar málamiðlanir þurfti að gera og allt það. Þegar maður kíkir á samantektir og gögn frá þjóðfundinum væri þó hægt að spyrja um ýmislegt fleira en gert er í umræddum spurningum.

Ef við kíkjum til dæmis á það sem snýr að náttúru Íslands, vernd og nýtingu voru skilaboðin á þá lund að setja þyrfti skýr lög um eignar- og nýtingarrétt þjóðarinnar á auðlindum, náttúru og lífríki. Ekkert er spurt um eignarréttinn í þeim spurningum sem fara á fram með. Ef gæta á jafnræðis, eða túlka þetta ekki bara á einn veg, hefði verið rétt, í það minnsta miðað við það plagg sem ég er með, að vera með spurningar er lúta að þessu.