140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur er varðar gagnrýni á vinnulagið og verklagið. Af því sem kom fram í umræðunni í andsvörum milli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og Gunnars Braga Sveinssonar tel ég að þjóðfundurinn hafi heppnast vel og verið skynsamlegt skref að taka í því ölduróti sem var í samfélaginu og reyna að varpa ljósi á ákveðna þætti. Það er líka augljóst að ákveðnir þættir virðast ekki hafa komið þar fram eins og mjög mikilvægir þættir sem nú eru mjög til umræðu og varða þjóðréttarlegar skuldbindingar.

Ég samþykkti að það yrði kosið til stjórnlagaþings en ég tel að það hafi mistekist. Það náðist ekki að höfða til allrar þjóðarinnar og niðurstaðan endurspeglaði ekki eðlilegan þverskurð hennar samanber að til að mynda einn eða tveir fulltrúar landsbyggðarinnar voru kosnir. Síðan hefur, má segja, hvert klúðrið tekið við af öðru í þinginu í þessu máli. Ég held að það hafi verið mikið óráð að skipa þá í ráð sem voru kosnir til stjórnlagaþingsins sem síðan var dæmt ógilt. Síðan einkenndist vandræðagangurinn í þinginu af tímaskorti og öðru í þeim dúr. Ég tel til að mynda að sá tímarammi sem stjórnlagaráðið fékk síðan hafi verið allt of naumt skammtaður og ekki við þá að sakast sem þar sátu, þeir gerðu sitt besta.

Ég hef hins vegar gagnrýnt vinnulagið harkalega og lagt til að farin yrði önnur leið, til að mynda að skýrslan sem kom frá stjórnlagaráðinu hefði fengið faglega umræðu og verið kláruð á þessu þingi. Nú spyr ég hv. þingmann hvernig (Forseti hringir.) henni finnst að vinnulagið við málið ætti að vera.