140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður beinir til mín nokkrum skýrum og afmörkuðum spurningum og ég ætla að reyna að svara þeim sem best ég get.

Vill Sjálfstæðisflokkurinn breyta stjórnarskránni? Já. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt það allan tímann og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert meira en það, þegar við höfum farið með stjórn landsins höfum við sýnt það í verki að við viljum breyta stjórnarskránni. Það er önnur mýta sem mér leiðist í þessari umræðu, að það hafi gengið illa að breyta stjórnarskránni, að okkur hafi ekki tekist að klára það mál. Ég veit ekki betur en að við höfum breytt henni í fleiri tugum greina, nú síðast var mannréttindakaflanum sem er mikilvægur kafli, einn af mikilvægustu köflum stjórnarskrárinnar, breytt í heild sinni í sátt af þeim sem þá sátu á þinginu. Já, Sjálfstæðisflokkurinn vill breyta stjórnarskránni, við viljum bara gera það rétt og við viljum gera það þannig að breytingarnar standist þá siði og þá hefð að það sé vandað til verka og það gert með aðkomu og í sátt allra stjórnmálaflokka.

Hvaða atriðum viljum breyta? Við höfum ítrekað farið í gegnum það í þessari umræðu hvaða atriðum er brýnast að breyta. Ég nefndi það áðan, það þarf að skýra embætti forseta Íslands. Svo liggur beinlínis fyrir að við þurfum að taka afstöðu til fullveldisframsalsins. Það eru þau atriði sem ég tel mikilvægast að fjalla um ef við förum í breytingar.

Vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja eignarrétt þjóðarinnar að auðlindum? Við höfum komið fram með þingmál í gegnum tíðina þegar við vorum í samstarfi, m.a. við flokk hv. þingmanns, þannig að ég held að sú saga ein og sér sýni að (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að gera breytingar þar á, þó þannig að það sé alltaf (Forseti hringir.) gætt að eignarréttarákvæðum sem eru afar mikilvæg í þessu samhengi.