140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég var að koma af fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur þar sem stjórnarskrármálefnin voru til umræðu. Það var fjölmennur fundur og meginumræðuefni fundarins var að fólki finnst forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni röng og að það sé almennt skilningurinn í samfélaginu að það sé ekki það sem skiptir máli í dag þegar ljóst er að margar fjölskyldur eru að missa heimili sín og það er mikið atvinnuleysi. Ríkisstjórnin gerir lítið sem ekkert í því að byggja upp atvinnulífið. Hún lagði fram plagg í vikunni þar sem farið var yfir framkvæmdaáætlun fyrir 2014 og 2015, en þá verður þessi ríkisstjórn ekki við völd. Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn að því hvort hann telji að það sé forgangsmál í þinginu að breyta stjórnarskránni. Er það allt saman sett á svið vegna þess að ekki er fullveldisframsalsákvæði í núgildandi stjórnarskrá? Er verið að keyra þetta mál í gegn til að hægt sé að liðka fyrir inngöngu okkar í Evrópusambandið? Fram kom í ræðu í umræðu um ESB-umsóknina á sínum tíma að ein af kröfunum frá Evrópusambandinu væri að stjórnarskránni yrði breytt.

Við vitum hvernig áherslan í lagasetningunni er búin að vera nú í vetur og síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum miðar allt í þá átt að uppfylla kröfur Evrópusambandsins. Er þingmaðurinn á því að forgangsröðunin þyrfti að vera með öðrum hætti? Telur hann að við ættum að leggja það mál til hliðar í haust er varðar þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og að í stað þess verði síðustu dagar þingsins nýttir til að koma heimilum í landinu til hjálpar og skapa hér atvinnu?