140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forgangsröðun í þinginu hefur að mínu mati verið röng í mjög langan tíma burt séð frá þessu eina máli. Það má ekki ræða þau mál sem skipta mestu máli og mest er kallað eftir í þjóðfélaginu að séu rædd hér, þ.e. skuldavanda heimilanna og að koma atvinnulífinu af stað og annað.

Hv. þingmaður spyr hvort hugsanlegt sé að tilgangurinn með því að fara í breytingar á stjórnarskránni sé svo hægt sé að ganga í Evrópusambandið. Ég stórefast um að það. En ég segi: Var það meirihlutavilji Alþingis að skipa stjórnlagaráð eftir að þessar kosningar um stjórnlagaþing voru dæmdar ógildar? Ég held að það fólk sem var í þeirri vinnu hafi bara tekið hlutverk sitt alvarlega og hafi ætlað sér að vinna að breytingum á stjórnarskránni burt séð frá því hvort hægt væri að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

En það sem ég hef verið dálítið hugsi yfir í þessari umræðu og hef komið töluvert inn á í ræðum mínum er hvernig getum við nýtt betur vinnu stjórnlagaráðs. Ég tel að það hefði verið skynsamlegra að taka til hliðar þær tillögur sem sátt var um innan þingsins og taka efnislega umræðu um tillögur stjórnlagaráðs, setja síðan fram afmarkaða spurningu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og fá þá leiðbeiningar frá þjóðinni um þær tillögur sem er ágreiningur um eða önnur sýn er á í meðförum þingsins.

Eins og við vitum er fullt fínum af tillögum í skýrslu stjórnlagaráðs og aðrar sem sumir hafa efasemdir um, þar á meðal ég, sem við þyrftum að ræða betur. Ég hræðist töluvert að þessi vinna fari fyrir lítið af því að þessu er stillt þannig upp að í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu kjósi maður í raun ekki um hvort hún eigi að gilda eða ekki og það verður túlkað með mismunandi hætti þegar (Forseti hringir.) niðurstöðurnar koma til þingsins.