140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, og ekki nóg með það. Ég tel hreinlega að ríkisstjórnin sé búin að klúðra þessu máli sem kostað hefur hátt í 1.000 millj. kr. með málsmeðferðinni í þinginu. Skýrslan er búin að liggja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í allan vetur og hefur engin efnisleg umræða farið fram um hana eða samlestur við gildandi stjórnarskrá. Komið hafa gestir fyrir nefndina en engin raunverulega vinna hefur farið af stað í þeim efnum.

Varðandi hina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem meiri hlutinn boðar með breytingartillögu óttast ég líka að það verði mjög lítil kosningaþátttaka þar vegna þess að við kjósendur vitum fyrir fram að þetta er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og stjórnvöld eru ekki bundin af úrslitum atkvæðagreiðslunnar. Það má því alveg segja að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé tilgangslaus, sérstaklega í ljósi þess að ekki er um endanlegt plagg að ræða. Ég gagnrýni það mjög mikið. Eina leiðin sem ég sé til að hífa upp þátttöku í þessari ráðgefandi skoðanakönnun er að samþykkt verði breytingartillaga mín um að við fáum að segja álit okkar á því samhliða þessum kosningum hvort við eigum að draga ESB-umsóknina til baka eða ekki. Annars er ég hrædd um að það verði afar lítil þátttaka.

Það var sögulega lítil þátttaka í stjórnlagaþingskosningunum þrátt fyrir að 525 manns, að mig minnir mig, væru í framboði. Segjum sem svo að 300–500 manns fylgi alltaf hverjum einstaklingi þannig að þarna var strax kominn atkvæðabunki upp á 12–15 þúsund manns sem fylgdu þessum mörgu frambjóðendum. Það er ekki til staðar í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem verið er að boða til hér og þess vegna væri (Forseti hringir.) skelfilegt ef það væri kannski 10% þátttaka.