140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem ítrekað að ég hefði talið rétt að farið væri betur yfir skýrslu stjórnlagaráðs og tekið yrði til hliðar það sem menn gætu sæst um að hafa áfram í þinginu og síðan gætu menn tekið einstaka ágreiningsmál þaðan út.

Við sjáum síðan vinnubrögðin. Núna hrúgast inn mjög mikill fjöldi af breytingartillögum og ef við tökum til að mynda kaflann um forsetann er það ég skilningur minn og almennt skilningurinn í þjóðfélaginu að menn vilja auka hið beina lýðræði. Þá þurfum við að taka umræðu um það hvort við viljum líka hafa málskotsréttinn og hvernig það tvennt spilar saman.

Spurt er: Viltu auka beint lýðræði? Jú. En hversu hátt hlutfall fólks getur kallað eftir kosningu um ákveðið mál? Geta 5%, 15%, 20% eða 30% fólksins kallað eftir breytingu með undirskriftasöfnun til að fá kosningu um ákveðin lög? Það kemur ekki fram og maður heyrir einhvern veginn fyrir sér að menn muni segja: Það hljóta auðvitað að vera 5%, sumir segja 30%. Ég hef verið svolítið hugsi yfir því hvernig við getum nýtt sem best þær tillögur sem fram komu hjá stjórnlagaráði.

Eins og málskotsrétturinn hefur þróast hljóta allir að hugsa með sér að fyrir örfáum árum var hann talinn vera dautt ákvæði sem hugsanlega yrði aldrei nýtt. Ekki var þó deilt um að það væri fyrir hendi. Nú hefur forseti nýtt sér ákvæðið þrisvar og hann getur komið fram og sagt: Ég tel mjög heppilegt að lög sem verið er að fjalla um á Alþingi núna fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þurfum því auðvitað að taka umræðu um þróunina. Þetta á ekki að snúast um hvort stjórnarliðar eða stjórnarandstaða á hverjum tíma eru sátt við hvernig forsetinn beitir ákvæðinu, þ.e. (Forseti hringir.) ef þau eru sammála honum er það í lagi en síðan þegar hlutföllin snúast við og þau fara aftur í ríkisstjórn eða í stjórnarandstöðu er (Forseti hringir.) allt ómögulegt. Það verður að taka þá umræðu.