140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því sem ég heyri er ég í grófum dráttum sammála mati hv. þingmanns á því hvernig skynsamlegt væri að vinna þessi mál. Mér finnst þó grundvallaratriði að fram fari þessi lagalega yfirferð sem Lagastofnun háskólans hefur m.a. lýst sig reiðubúna til að fara í ef nægur tími verður gefinn í það. Þegar verið er að breyta stjórnarskrá er sérlega mikilvægt, þó að það sé alltaf mikilvægt þegar menn breyta lögum, að á henni verði ekki lagatæknilegir gallar eða atriði sem geta þvælst fyrir við lagasetningu eða túlkun laga þegar fram líða stundir.

Maður getur ekki annað en spurt: Hvers vegna eru hlutirnir unnir með þessum hætti? Af hverju er ekki farin einhver leið í líkingu við það sem hv. þingmaður lýsti, sem virðist miklu skynsamlegri en það upplegg sem er hér til umræðu?

Ég kemst ekki að annarri niðurstöðu — og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það — en að þetta sé afleiðing af pólitískri stöðu ríkisstjórnarinnar, veikri stöðu ríkisstjórnarinnar, vegna þess að sú tillaga sem hér er til umræðu er upprunalega frá Hreyfingunni komin. Upprunalega var þessi tillaga miðuð við að fram færi atkvæðagreiðsla samhliða forsetakosningum og allir tímafrestir hvað það varðaði voru í raun útrunnir nema kosningadagurinn sjálfur þegar málið poppaði allt í einu aftur upp í þinginu eftir að hafa legið í dvala, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin gerði ekkert með þetta í marga mánuði en allt í einu, þegar hún var lent í jafnveikri stöðu og nú er raunin, var þetta mál dregið upp eftir að allir frestir voru meira og minna útrunnir? Er þetta (Forseti hringir.) þá ekki eingöngu gert til að kaupa stuðning Hreyfingarinnar?