140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að gleðjast yfir því að við skulum ræða þetta á laugardegi í birtu vegna þess að þá eru ekki margir kjósendur okkar við vinnu og geta því fylgst með umræðunni. Það er náttúrlega mjög verðmætt að fólk sem á að greiða atkvæði um stjórnarskrána geti fylgst með umræðu um það hvað stjórnarskrá er yfirleitt og hvað það mun greiða atkvæði um.

Svo er spurningin hver áhuginn er. Ég held að í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram væri kannski skynsamlegra að koma með breytingartillögu, og ég ætla að ræða við hv. þingmann um það, um að í staðinn fyrir að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem kostar 200–300 milljónir verði hreinlega farið í ítarlega og vandaða skoðanakönnun sem kostar eflaust ekki nema brot af þessum peningum og gefur miklu betri niðurstöðu þar sem öll þjóðin yrði spurð, ekki bara þeir sem hafa áhuga. Hættan er sú að ekki mæti margir í slíka atkvæðagreiðslu, en ég vona að svo verði ekki.

Ég ætla að byrja á því að ræða um íslenskt ríkisfang. Í 1. mgr. 4. gr. draganna stendur, með leyfi forseta:

„Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum.“

Þetta þýðir eftirfarandi: Ef mörg ríki hafa svona ákvæði, sem þau hafa nú þegar — Þýskaland hefur svona ákvæði og mörg önnur — þá gerist það að borgarar frá tveimur ríkjum eignast börn sem eru með tvöfaldan ríkisborgararétt og ef þau börn rekast á önnur börn sem eru líka með tvöfaldan ríkisborgararétt þá er kominn fjórfaldur ríkisborgararéttur. Ef þau börn, í 3. kynslóð, rekast aftur á börn sem eru með fjórfaldan ríkisborgararétt er kominn áttfaldur ríkisborgararéttur. Þessi verðbólga í ríkisborgararétti gerir það að verkum að hann verður mjög lítils virði. Það er ekki hægt að miða við hann. Ég vil bæta við að þeir sem öðlast ríkisfang tveggja ríkja eða fleiri skuli velja eitt ríkisfang við 18 ára aldur. Þá er búið að stoppa þessa verðbólgu í ríkisfangi sem ég ætlaði rétt að koma inn á. Þetta er eitt af því sem við verðum að ræða í sambandi við stjórnarskrána, herra forseti, og fólk á að greiða atkvæði um. Er það sátt við þetta eða ekki?

Síðan ætla ég að tala um það sem stendur í 1. mgr. 12. gr., með leyfi forseta:

„Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Hvað gerist ef engin lög eru sett? Hvað gerist þá eða ef sett eru lög sem ekki eru nákvæmlega í þessum anda? Hverju eiga dómstólar að fara eftir? Stjórnarskráin segir ekkert um það því að það á að setja ákvæði í lög.

Ég mundi vilja segja þetta miklu skýrar: Börn eiga rétt á umönnun. Þá liggur það alveg á tæru, þá liggur það fyrir í stjórnarskrá að börn eiga rétt á umönnun. Ég mundi meira að segja vilja bæta við, herra forseti: Börn eiga rétt á umönnun og framfærslu — því að, hvers virði er umönnunin ef engin er framfærslan? Þannig má breyta þessu og í stað þess að útþynna stjórnarskrána þannig að hún krefjist lagasetningar frá Alþingi sem starfar samkvæmt stjórnarskránni, þá sé einfaldlega sagt í stjórnarskránni: Börn eiga rétt á umönnun og framfærslu — punktur.

Í 14. gr. í II. kafla er talað um ritskoðun og annað sambærilegt og að það megi aldrei leiða í lög. Í staðinn fyrir að segja að ekki megi leiða það í lög mundi ég vilja að stæði: Ekki má beita ritskoðun eða takmarka tjáningarfrelsi okkar — þannig að stjórnarskráin væri afdráttarlaus og hægt væri að dæma samkvæmt henni.

Svo er mjög áhugaverð grein — nú, tími minn er búinn, þetta gengur allt of seint. Þar stendur að „frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gagnsætt eignarhald“ skuli tryggja með lögum. Ég hefði viljað segja: Fjölmiðlar skulu vera frjálsir, ritstjórnir þeirra sjálfstæðar og eignarhald þeirra gagnsætt. Þá er ákvæðið í stjórnarskránni og þarf engin lög til að stjórnarskráin öðlist gildi.

Mér finnst þær greinar þar sem verið er að útþynna stjórnarskrána mjög hættulegar.