140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru réttmætar spurningar hjá hv. þingmanni. Nú er það þannig að tillagan eins og hún liggur fyrir eftir síðari breytinguna orðast þannig, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Þetta opnar á að hægt sé að breyta verulega miklu. Og þá kemur spurningin mikla: Hvað má breyta miklu? (VigH: Einmitt.) Má skrifa algerlega nýja stjórnarskrá? Getur þessi lögfræðihópur skrifað algerlega nýja stjórnarskrá og hvað segja þá kjósendur sem hafa kosið og greitt þessu plaggi atkvæði sitt?

Mér finnst allt þetta ferli ómögulegt í stuttu máli sagt. Það hefði verið miklu betra að fá skoðanakönnun vegna þess að ef um skoðanakönnun er að ræða þá er engin skuldbinding í því. Þá er bara verið að kanna hug manna til málsins og þá er ekkert verið að kjósa um eitt eða neitt heldur er verið að segja: Þessi maður er hlynntur þessu ákvæði, þessi er á móti o.s.frv. Þar gætum við til dæmis spurt hvort geta eigi um fjölmiðla í stjórnarskránni eða ekki. Viljum við ganga svo langt að geta um Ríkisendurskoðun í stjórnarskránni? Hvað á stjórnarskráin að ná mikið yfir lagasafnið? (Gripið fram í.) — Já, á stjórnarskráin að vera með allt lagasafnið undir? Getum við sett allt lagasafnið í stjórnarskrá? Mér finnst þetta vera mjög varasöm þróun.

Ég vil hafa stjórnarskrána tiltölulega stutta og mjög einfalda þannig að allir geti skilið hana og hún á að ganga út á grundvallaratriði, virkileg grundvallaratriði. Ég er ekki viss um að fjölmiðlar og frelsi þeirra, þó að það sé mikilvægt, sé grundvallaratriði fyrir líf borgaranna í þessu landi.