140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í orðaskiptum hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur er óneitanlega sérkennilegt að spyrja út í stjórnarskrá sem menn vita ekki hvernig muni líta út. Það er ekki einu sinni verið að spyrja um drög sem menn ætli síðan að vinna með. Það er verið að spyrja um drög sem munu líta öðruvísi út þegar þingið fer svo að vinna með þau.

Manni finnst það einhvern veginn blasa við að miklu skynsamlegra hefði verið, og miklu eðlilegri vinnubrögð, að byrja þá á lagalegri yfirferð og yfirferð á því hvernig stjórnarskráin stenst alþjóðasamninga og láta menn kjósa svo. Þess vegna getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvers vegna þetta er gert með þessum hætti. Ég finn ekki aðra skýringu á því en þá sem ég nefndi í andsvari við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson áðan að þessu sé allt í einu fleygt inn í þingið, svona vanbúnu, vegna þess að Hreyfingin gerir kröfu um það og ríkisstjórnin virðist telja sig þurfa að reiða sig á stuðning hennar.

Má þá ekki segja, að mati hv. þingmanns, að vinnan við breytingar á stjórnarskrá sé orðin leiksoppur pólitískra hrossakaupa í þinginu, að menn séu með öðrum orðum ekki að vinna þessa hluti á sem skynsamlegastan hátt og ástæðan fyrir því séu pólitísk hrossakaup sem miði fyrst og fremst að því að halda lífi í ríkisstjórninni?