140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hversu veikur rökstuðningurinn er fyrir þeirri aðferðafræði sem hér er lögð til var sett í nýtt ljós fyrir nokkrum dögum þegar hv. þm. Árni Páll Árnason lýsti því yfir að það kynni að vera rétt að kjósa um það hvort halda bæri áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þá brugðust hæstv. forsætisráðherra og fleiri flokksmenn Samfylkingarinnar ókvæða við og sögðu að það væri algerlega ómögulegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ferli sem væri ekki lokið. Það væri skynsamlegra að klára samningaviðræður, eins og það var orðað, þó að Evrópusambandið hafi varað við því orðalagi; þeir reyna að útskýra það þannig að ekki sé um að ræða samningaviðræður heldur aðlögunarferli. Því var alla vega haldið fram, meðal annars af hálfu forsætisráðherra, að eina vitið væri að klára samninginn, sjá samninginn á borðinu. Fyrr væri ekki hægt að kjósa um málið.

Á sama tíma beitir þessi hæstv. forsætisráðherra sér af hörku fyrir því að þetta mál, algerlega vanbúið, algerlega óljóst, spurningar sem munu ekki skila neinu, sé sett í þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að vinna málið áfram, gefa fólki þá kost á því að kjósa um raunverulegar tillögur. Finnst hv. þingmanni þetta ekki dálítið þversagnakennt, sérstaklega þó í ljósi þess að menn vita út á hvað Evrópusambandsaðild gengur? Það liggur alveg fyrir. Evrópusambandið sjálft hefur reynt að útskýra það fyrir Íslendingum og þar af leiðandi er vel hægt að kjósa um það hvort menn vilji halda áfram á þeirri braut. Menn vita hvernig markmiðið lítur út. Hér er hins vegar ætlast til að fólk kjósi um eitthvað þar sem ekki er einu sinni vitað hvernig markmiðið á að líta út.