140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þarna kemur hv. þingmaður inn á mjög athyglisverðan hlut sem er rökleysa í afstöðu manna til ýmissa mála. Mér finnst að það fólk sem vill ganga í Evrópusambandið, og vill halda því til streitu án þess að þjóðin komi að því fyrr en allt liggur uppi á borðum og búið er að ganga frá aðlögun okkar að Evrópusambandinu, eigi jafnframt að gera kröfu til þess í þessu máli að allt sé klárt, búið sé að vinna þetta á Alþingi og fara efnislega í gegnum einstakar greinar; að hv. nefnd sem um þetta mál fjallar fái til sín gesti og ræði sjálf hverja einustu grein, því að þá virðingu ætti nefndin að sýna stjórnarskrá landsins, og taki ákvörðun um það hverju megi sleppa, hverju megi breyta o.s.frv. Eftir það fengi þjóðin að greiða atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá sem væri þá fullbúin.

En að fara að senda plagg sem er hrátt og óundirbúið og fullt af mótsögnum vegna þess hve lítill tími vannst til að vinna þetta í stjórnlagaráðinu — mér finnst það vera vanvirðing við kjósendur, það er vanvirðing við stjórnarskrána sérstaklega. Mér finnst að hún eigi skilið miklu betri vinnubrögð og miklu meiri virðingu en menn sýna henni með því að taka einhver drög — og það er búið að benda á, herra forseti, að margar veilur eru í þessum drögum sem þarf að laga, sem verður að laga. Af hverju er það ekki gert áður en þetta er sent til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu þannig að menn viti að hverju þeir ganga?

Ég er sammála hv. þingmanni í því að aðlögunarferlið gagnvart Evrópusambandinu er miklu skýrara, miklu klárara, nú þegar og lægi miklu betur við að greiða atkvæði um það samhliða næstu kosningum en það plagg sem við ræðum hér.