140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í umræðu um þessar tillögur rekum við okkur hvað eftir annað á það hversu óskilvirk og gagnslítil, jafnvel skaðleg, sú aðferðafræði sem hér er lagt upp með er. Dæmið sem hv. þingmaður nefndi er eitt af mörgum og ég er alveg sammála mati hans á því að að sjálfsögðu hefði verið miklu skynsamlegra að fara betur yfir tillögurnar sjálfar, hafa raunverulega umræðu um þær í þinginu áður en lengra væri haldið.

Af því að hv. þingmaður gerði jöfnun atkvæða að umtalsefni og umræðu um það er rétt að hafa í huga að hvað flokka varðar gilda öll atkvæði jafnt alls staðar á landinu. Það er að sjálfsögðu afleiðing af því að við höfum byggt á flokkakerfinu hér eins og menn gera í langflestum löndum. Nú hefur það sætt meiri gagnrýni en oft áður og tilefnið er að sjálfsögðu efnahagshrunið, eins og svo margt annað í umræðunni undanfarin missiri. Þá hafa þeir sem hafa haft horn í síðu flokkakerfisins séð tækifæri til að gagnrýna það.

Eitt af því sem við þyrftum að ræða í tengslum við jöfnun atkvæðaréttar er hvort menn vilji draga úr vægi flokkakerfisins. Á því eru vissulega ákveðnir gallar sem hafa oft og tíðum gleymst í umræðunni. Sem sagt, atkvæði gilda jafnt hvað varðar flokka en vissulega eins og fyrirkomulagið er núna koma hlutfallslega fleiri þingmenn af landsbyggðinni sem fulltrúar þessara flokka en af höfuðborgarsvæðinu heldur en sem nemur íbúafjöldanum. Það hefur meðal annars verið rökstutt með vísan til þess að landsbyggðarkjördæmin eru að sjálfsögðu mjög stór og erfitt að fara yfir — (Forseti hringir.) Nú næ ég ekki alveg að klára svarið til hv. þingmanns. Ég verð að gera það í seinna andsvari.