140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin þó að hann hafi kannski ekki náð að svara algerlega. Við erum að tala um að gera landið þá að einu kjördæmi. Ef við ætlum að jafna atkvæðaréttinn er auðvitað mikilvægt að taka þá umræðu eins og hún er, kosti þess og galla að gera það, og síðan getum við endalaust tekið umræðuna um það hvort þá þurfi ekki að jafna gæði eða aðgang landsmanna með jöfnum hætti að öðrum, hvort sem það er atkvæðarétturinn eða bara aðgangur að grunnþjónustunni, heilbrigðisþjónustu og þar fram eftir götunum. Ég segi fyrir mitt leyti að ef þetta yrði samþykkt liggur beinast við og er skynsamlegast að gera landið að einu kjördæmi eða stokka kjördæmaskipanina upp eins og hún er núna. Ég sé ekki fyrir mér að það muni ganga vel svona.

Bara til að ítreka það, þegar forustumenn gamla kjördæmisins í Norðurlandi vestra (Forseti hringir.) vildu ná eyrum forsætisráðherra tók það marga mánuði þó að það væru mörg tilefni (Forseti hringir.) til að setjast niður og ræða við fulltrúa fólksins í kjördæminu um þau málefni sem voru undir.