140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veltir upp mjög áhugaverðum spurningum í andsvari sínu. Ég gæti raunar haldið nokkrar alllangar ræður til að svara þeim spurningum sem velt var upp. En svo ég hafi þetta tiltölulega stutt er ég eindregið þeirrar skoðunar að það hafi skort mjög á þá umræðu sem hefði þurft að fara fram um stöðu kirkjunnar og trúarinnar, bæði út frá sögulegu og menningarlegu mikilvægi kirkjunnar, en einnig hvað varðar stöðu kirkjunnar gagnvart ríkinu og þá samninga sem hafa verið gerðir við kirkjuna, ekki bara á undanförnum áratugum heldur undanförnum öldum. Menn gleyma því nefnilega oft að kirkjan hefur í gegnum tíðina afsalað sér ýmsum réttindum og eignum með samningum við ríkið og sú staða sem hún hefur notið, m.a. hvað varðar fjárframlög, er meðal annars afleiðing af því. Það er ekki hægt einhliða af hálfu ríkisins að skera kirkjuna alveg frá og raunar teldi ég það mjög óæskilegt því að kirkjan gegnir enn mjög miklu og mikilvægu hlutverki í samfélaginu, ekki bara þjóðkirkjan heldur einnig önnur trúarbrögð. Það er ekki hægt að ráðast í mjög miklar breytingar á stöðu kirkjunnar án þess að fara í gegnum alla þessa umræðu svo þetta er mál sem þyrfti að fara miklu betur í gegnum eins og reyndar margt annað sem við erum að ræða hér.

Hvað varðar breytingartillögu hv. þingmanns um fækkun þingmanna held ég að það væri æskilegt, ef við ætlum að fara út í þessa stóru skoðanakönnun á annað borð, að menn noti þá tækifærið og spyrji um sem flest atriði til að fá sem (Forseti hringir.) mestar upplýsingar og þar af leiðandi hef ég ekkert við tillögu hv. þingmanns að athuga.