140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og eins og ég hef áður lýst yfir í andsvari við hv. þingmann finnst mér breytingartillögur hans um margt ágætar og hef lýst stuðningi mínum við þær. Þó að þær séu að sönnu nokkuð óvenjulegar held ég að þær nái vel að lýsa fáránleika þessa máls á sinn hátt.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í sambandi við það ferli sem þetta mál er og hefur verið í. Nú erum við að ræða þetta í síðari umræðu. Við þekkjum forsöguna, það átti að setja þetta í atkvæðagreiðslu með forsetakosningunum 30. júní en það náðist ekki í tæka tíð í lok mars. Síðan kemur málið aftur á dagskrá og þá með breytingartillögu um að atkvæðagreiðslan eigi að fara fram í lok mars. Síðan kemur málið aftur á dagskrá og þá með breytingartillögu um að atkvæðagreiðslan eigi að fara fram eigi síðar en 20. október og í millitíðinni er sett af stað í nefndinni vinna lögfræðinga, sérfræðinga í stjórnarskipunarrétti á þessu sviði, sem eiga samhliða því að þjóðaratkvæðagreiðslan er undirbúin og í aðdraganda hennar að fara yfir þessar tillögur. Á sama tíma og verið að spyrja hvort þessar tillögur eigi að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá eru þeir að fara í þær og með því er meiri hluti nefndarinnar væntanlega að bregðast við þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram um að tillögur stjórnlagaráðs séu ekki tækar til að vera bornar undir þjóðina. Þær eru ekki fullunnar.

Hvað finnst hv. þingmanni um þetta nýjasta útspil nefndarinnar? (Forseti hringir.) Telur hann að þessi vinna gangi hreinlega upp, að hún fari fram samhliða og í aðdraganda (Forseti hringir.) atkvæðagreiðslunnar?