140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, því miður er hætt við því að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér um að það sé dálítið mikið eftir af þessari sögu. Tilfellið er nefnilega að þegar menn sætta sig ekki við að þeir hafi farið rangt að og halda áfram að reyna að rökstyðja eða verja vonlausan málstað verður það alltaf erfiðara og erfiðara og menn þvælast lengra og lengra út í ferli sem gengur ekki upp.

Það má líkja þessu við það þegar menn héldu því fram að jörðin væri flöt og eftir því sem komu meiri upplýsingar sem sýndu fram á að sú væri ekki raunin urðu tilraunirnar til að rökstyðja það að jörðin væri raunverulega flöt alltaf skrautlegri og skrautlegri. Því var haldið fram á tímabili að himingeimurinn væri tjald yfir þessari flötu jörð og stjörnurnar væru göt á þessu tjaldi svoleiðis að það þýddi ekkert að áætla út frá stjörnunum hver staða jarðarinnar í alheiminum væri. (Forseti hringir.) Mér finnst menn dálítið lentir í sömu stöðu með þetta mál eftir því sem þeir halda því lengur gangandi.