140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að koma aðeins of seint í ræðustól, það er vegna þess að ég fór að fletta upp þingskjölum af því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór yfir þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskránni og þeim drögum sem hér liggja fyrir. Mig langaði nefnilega að sýna fram á að þetta er raunverulega stefna Vinstri grænna, aðskilnaður ríkis og kirkju. Ég var að leita að þingskjali sem mig minnti að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefði lagt fram um að aðskilja ætti ríki og kirkju. Ég fann það ekki á yfirstandandi þingi þannig að þetta hlýtur að hafa verið lagt fram á síðasta þingi.

Þetta hefur um nokkra hríð verið eitt af undirliggjandi stefnumálum Vinstri grænna og það er kannski skýringin á því af hverju þetta er komið inn á þennan spurningavagn og lagt er til að bera undir þjóðina hvort henni finnist að ákvæði um þjóðkirkjuna eigi að vera í stjórnarskránni.

Þannig að ég spyr þingmanninn, ef hún gæti farið aðeins betur yfir það: Hvert er hennar álit, mundi það skapa einhverja réttaróvissu ef þetta yrði fellt? Mundi sú stefna sem er hér á landi varðandi þjóðkirkjuna breytast — við vitum náttúrlega að þetta er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla — mundi þetta hafa einhver áhrif?