140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Ég efast ekki um að ég og hæstv. forseti erum sammála um að þetta hafi verið áhugavert og þarft innlegg í þessa umræðu. Sérstaklega vil ég þó nefna þann punkt sem hv. þingmaður kom inn á í upphafi málsins sem snerist um hversu mikið ójafnvægi er í spurningunum sem lagt er til að verði spurt í þessari skoðanakönnun. Annað svarið gefur mjög afdráttarlausa niðurstöðu en hitt svarið mjög opna og óljósa niðurstöðu. Ég geri ráð fyrir að þetta ójafnvægi sem hv. þingmaður benti réttilega á sé vegna þess að tilgangurinn með þessari könnun er að ná fram ákveðinni niðurstöðu og hv. þingmaður kom raunar inn á það líka. Mér heyrðist hv. þingmaður vera sammála mati mínu sem ég hef spurt tvo hv. þingmenn út í fyrr í umræðunum, en ég vildi gjarnan fá staðfestingu á því hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að það sem ríkisstjórnin ætlar sé með þessari aðferð, með svona opnum spurningum, sé að fá opinn tékka, fá ákveðna niðurstöðu sem hún getur síðan vísað í þegar hún leggur fram sínar eigin mótuðu tillögur og sagt þá: Þessar tillögur eru settar fram til að uppfylla vilja þjóðarinnar í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Þar má nefna sem dæmi spurningu 3 sem hv. þingmaður fjallaði töluvert um, þar sem spurt er: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Hugsunin sé sú að fá ákveðna niðurstöðu og leggja síðan fram eigin útfærslu og segja: Þessi útfærsla er það sem þjóðin bað um.