140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Svar mitt við því af hverju ég legg þessa breytingartillögu fram er ósköp einfalt. Ef við skoðum tillögur stjórnlagaráðs og þær breytingar sem lagðar eru til, er svolítið skrýtið að ekki skuli vera spurt til dæmis út í hlutverk forsetans, eðli forsetaembættisins. Það er ekki spurt út í það hér. En ef við skoðum allar breytingar eða tillögur af hálfu stjórnlagaráðs og það sem menn eru að velta fyrir sér að taka til viðbótar, er ljóst að verið er að minnka hlutverk Alþingis. Það er verið að minnka vægi Alþingis. Það kann að vera gott, það kann að vera vont. Við getum haft skiptar skoðanir á því.

Í ljósi þess að umsvif Alþingis, ef allar tillögurnar ná fram að ganga, munu minnka, tel ég ekki óeðlilegt að fjöldi þingmanna verði í samræmi við það. Þess vegna legg ég til að þjóðin, samhliða þessum hugsanlegu breytingum, verði spurð að því hvort ekki eigi þá að fækka þingmönnum úr 63 í 51. Þetta er meginástæðan fyrir því að ég legg fram þessa breytingartillögu.