140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var með upphaflegu tillöguna en ég hafði líka skoðað breytingartillöguna á einhverjum stigum málsins og þar er líka mótsögn. Ef menn segja já við fyrsta liðnum: „Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“ verða þeir aftur spurðir að því sama. Þeir yrðu spurðir að því í öðrum lið: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“ Ef maðurinn segir nei þar, hann er búinn að segja já áður, þá er hann kominn í mótsögn við sjálfan sig.

Þessar spurningar eru því í raun skilyrtar og innifaldar hverjar í annarri, t.d. að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Það er í tillögunni sem hann var búinn að segja já við áður. Það er þessi rökleysa sem ég hef verið að benda á og mér fannst hv. þingmaður ekki taka nægilega vel á, þ.e. að ef menn segja já við því að þessar tillögur stjórnlagaráðs séu hafðar til grundvallar þá eru flestar spurningarnar í raun óþarfar nema varðandi þjóðkirkjuna vegna þess að það er ekki í tillögum stjórnlagaráðs, það er hreinlega tekið út.

Mér finnst að þessi breytingartillaga meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gangi ekki rökfræðilega upp af því að ef menn segja já eru þeir búnir að svara flestum spurningunum, en ef þeir segja nei er í rauninni allt fallið burt.