140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á það skal minnst að stjórnarandstaðan fékk ekki að koma að málinu og hvernig þessari spurningar voru valdar í upphafi. Ég var mjög gagnrýnin á það þar sem ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Til dæmis á upphaflega skjalinu þar sem þeir möguleikar eru að svara já, nei og tek ekki afstöðu — það var náttúrlega algjör rökvilla að hafa þetta í þremur liðum. Ef ég segi já segi ég já, ef ég segi nei segi ég nei, en ég mæti ekki á kjörstað ef ég ætla ekki að taka afstöðu. Kjósandi á ekki að fara inn á kjörstað til að kjósa um tillögur og merkja við reitinn: tek ekki afstöðu, eins í skoðanakönnun.

Þetta mál er búið að vera svo mikil vitleysa og illa unnið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á misræmið sem felst í þessu að ef já-ið er fyrst þá er búið að svara öllum spurningunum niður í tölulið sex sjálfkrafa, vegna þess að þetta er í tillögum stjórnlagaráðs á einhvern hátt, ekki svona orðað, allt nema ákvæðið um kirkjuna, en þá þurfti að koma skýring neðst í breytingartillögunni sem stendur:

„Jafnframt komi skýrt fram á kjörseðli að kjósandi geti sleppt því að svara einstökum spurningum.“

Það er náttúrlega alveg fáheyrt að einhver skilyrði skuli vera á kjörseðli í þjóðaratkvæðagreiðslu og útskýringar. Það sýnir hvað málið er í mikilli rúst. Það er búið að kveikja á eldspýtunum og þetta er bara hér að brenna.