140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í 2. mgr. 111. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.“

Hvað gerist ef Alþingi setur engin lög um það? Þá stendur 1. mgr. ein og sér, óháð, og þar er hægt að gera samning við Evrópusambandið. Svo stendur:

„Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.“

En ef Alþingi samþykkir það ekki, ef Alþingi gerir bara ekki neitt, stendur 1. mgr. óbreytt og ein og sér og samkvæmt henni er heimilt að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal. Þetta er meingallað og stórhættulegt.

Í drögum að stjórnarskrá sem stjórnlagaráð sendi frá sér eru margar góðar athugasemdir og góðar greinar en þetta ákvæði gerir það að verkum að ég mundi ekki geta samþykkt tillöguna í heild. Ég hef margoft bent á að það er mjög slæmt að henda þessu svona óræddu í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar eitt ákvæði, sem er framsal ríkisvaldsins þannig að ráðherrar geta sótt um aðild að Evrópusambandinu viðstöðulaust samkvæmt stjórnarskrá, samkvæmt 1. mgr. 111. gr. tillögu stjórnlagaráðið, gerir það að verkum að menn greiða atkvæði gegn öllu hinu. Það þætti mér mjög miður. Mér finnst menn vera að fara með stjórnarskrána í helför með því að setja tillögurnar svona hráar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri miklu betra að hafa unnið þetta pínulítið betur.