140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forseti skýrir það eflaust sjálfur hvaða orðaval það var sem gerð var athugasemd við, ég átta mig nú reyndar ekki alveg á því hvað það var, enda ekki mitt að hafa skoðun á því.

Ég verð að viðurkenna að hv. þingmanni tekist að hræða þann er hér stendur svolítið með hugsunum sínum um þessa grein. Ég verð að segja að hv. þingmaður nokkuð hefur til síns máls. Það má eflaust túlka málsgreinina með þessum hætti. Niðurstaðan er hins vegar sú eins og með margar aðrar greinar að hægt er að túlka þær eða lesa á margan hátt en það gengur vitanlega ekki þegar við erum að fjalla um stjórnarskrá. Það má heldur ekki vera þannig að við séum með einhverjar óljósar vangaveltur eða skilja eftir göt sem einhverjir stjórnmálamenn, sem eru nú misjafnir eins og þeir eru margir, geta leikið sér með. Það viljum við ekki gera.

Ég ítreka þá breytingartillögu sem ég mælti fyrir og vil að bætist við þær spurningar sem spyrja á í október. Ég tek það fram að að sjálfsögðu getur tillagan breyst ef sérfræðingar telja orðalagið ekki nógu gott og þá breytum við því bara.

Tillagan er svona, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem veitir ríkisvaldi heimild til framsals ákvarðana til annars stjórnvalds um nýtingu auðlinda?“

Mér finnst það nokkuð skýrt. Það snýr að því hvort við viljum að ríkisvaldið á hverjum tíma geti falið einhverju öðru stjórnvaldi umsjón auðlinda okkar. Þá er ég fyrst og fremst að horfa til Evrópusambandsins sem viðurkenndi það fyrir löngu að helsti kosturinn við inngöngu Ísland í Evrópusambandið væri að Ísland borgaði meira en það fær út úr Evrópusambandinu og að hér væru allsnægtir í auðlindum.