140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

hugsanlegt brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu.

[15:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það er við hæfi að hefja þessa fyrirspurn á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með atvinnutilboð sem honum barst frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég tel að tímasetningin á því að þetta skuli hafa verið birt sé ekki tilviljun. Fram undan eru kosningar í Grikklandi. Ég reikna með að þetta séu ákveðin skilaboð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum um að menn skuli hugsa sinn gang varðandi hvern þeir kjósa þar. Annars eru væntanlega til úrræði hjá þessum ágætu stofnunum til að fást við þá niðurstöðu ef hún reynist röng.

En úr því að við erum að tala um Grikkland vil ég beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Í ljósi þess að nú er orðin veruleg hætta á því að Grikkir þurfi að yfirgefa evrusamstarfið, hefur ríkisstjórn Íslands þá hafið með formlegum hætti einhvers konar undirbúning undir slíkt? Hefur verið samin einhvers konar viðbragðsáætlun? Hefur verið settur á laggirnar einhvers konar undirbúningshópur með formlegum hætti og hefur málið verið tekið fyrir með formlegum hætti innan ríkisstjórnarinnar?

Um er að ræða einhver helstu viðskiptalönd okkar Íslendinga sem lent gætu í gríðarlega miklum efnahagslegum þrengingum. Ef evran flosnar upp, hrynur, skiptir miklu máli fyrir okkur Íslendinga að við séum undirbúin undir það. Hvort sem um er að ræða sjávarútveginn eða markaði hans eða aðra atvinnugreinar eins og ferðamennskuna er augljóst að hrun evrunnar mundi hafa gríðarleg áhrif á efnahag okkar Íslendinga. Því er eðlilegt að ég spyrji, og ég vonast til að fá svör frá hæstv. ráðherra, um hvaða undirbúningur hefur átt sér stað. Með hvaða hætti er sá undirbúningur, þ.e. formhlið hans? Hefur málið verið tekið fyrir til umræðu innan ríkisstjórnarinnar?