140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

hugsanlegt brotthvarf Grikkja úr evrusamstarfinu.

[15:07]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég skal að sjálfsögðu taka þá tillögu til skoðunar að upplýsa eitthvað um þetta í formi skýrslu eða umræðu. Ef eftirspurn er eftir því er rétt að skoða það og er nægur tími til að taka það inn á dagskrá þingsins. Ég geri þá ráð fyrir að hv. þingmaður sé að gefa í skyn að nægjanlegt svigrúm verði fyrir umræður um slík mál á síðustu dögum þinghaldsins.

Varðandi samskiptin við Evrópusambandið að öðru leyti tel ég að við eigum að stíga varlega til jarðar í sambandi við það að blanda þessum erfiðleikum inn í það. Það má að minnsta kosti ekki bera það yfirbragð að við séum að gera út á erfiðleikana þarna á einhvern hátt því að nægir eru þeir samt og það væri ekki stórmannlegt að hoppa á það. En hitt hef ég sagt og það stendur, að það hlýtur auðvitað að hafa viss áhrif á mat okkar á Evrópusambandinu og hvernig okkur líst á félagsskapinn í því hvernig Evrópusambandið sem eining reynist (Forseti hringir.) þeim vanda vaxið að takast á við þetta og hvernig þeir reynast sínum minnstu bræðrum í erfiðleikum.