140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við ESB.

[15:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður og vil ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni kærlega fyrir að vekja máls á þessu vegna þess að ég var búin að íhuga að spyrja hæstv. innanríkisráðherra sambærilegra spurninga.

Það er afar einkennilegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra upplýsi að verið sé að halda krísufundi í ríkisstjórn Íslands og efnahagsráðherraráði ríkisstjórnarinnar um skuldavanda og evruvandræðin í Grikklandi. Og nú er það viðurkennt í Evrópu að falli Grikkland sé stutt í að Spánn fari sömu leið, en Spánn er með fimm sinnum stærra hagkerfi en Grikkir þannig að þá verður tjónið enn meira.

Það er afar einkennilegt að Íslendingar skuli enn vera með umsóknina þarna inni þegar ríkisstjórn Íslands, sú sem fylgdi umsókninni úr hlaði á sumarmánuðum 2009, sé fyrir utan það brennandi hús eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lýsti í ræðu sinni. Það er afar einkennilegt.

Þess vegna langar mig að inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því í ljósi þess sem komið hefur fram í þinginu í dag: Er ekki rétt að við greiðum atkvæði um það hvort draga eigi umsóknina til baka, að fyrst verði það rætt í þinginu og svo verði því beint til þjóðarinnar hvort þjóðarvilji sé fyrir því að halda þessari vitleysu áfram? Nú hefur ríkisstjórnin sjálf viðurkennt að það er glapræði að halda þessum aðildarviðræðum áfram samkvæmt orðum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Það er oft talað um að stjórnarandstaðan haldi þinginu í gíslingu og það hefur oft komið fram síðustu daga. Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Er ekki verið að halda þinginu í gíslingu með því að koma ekki tillögu minni á (Forseti hringir.) dagskrá þingsins til lokaatkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram með (Forseti hringir.) Evrópusambandsumsóknina eða ekki?