140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við ESB.

[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra kærlega fyrir svörin en ég vona að ráðherrann átti sig á því að þessu máli verður ekki komið til þjóðarinnar nema með aðkomu þingsins. Þjóðin getur ekki krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna hef ég lagt á það mikla og knýjandi áherslu að þingið fái þetta mál í hendurnar sem fyrst þannig að hægt sé að fara með það til þjóðarinnar.

Það er annar meiri hluti hjá þjóðinni gagnvart ESB-málinu. Um það bil 65% sem vilja ekki þarna inn á móti 35% sem vilja það. Það er líka að myndast nýr meiri hluti í þinginu fyrir því að þetta mál fái framgöngu. Síðast lýsti hæstv. innanríkisráðherra því yfir að hann vildi að þjóðin skæri úr um þetta og ég vísa líka í hæstv. utanríkisráðherra sem tjáði sig í síðustu viku auk tveggja þingmanna stjórnarliðsins. Því spyr ég ráðherrann: Eigum við ekki að (Forseti hringir.) láta til skarar skríða í eitt skipti fyrir öll og klára málið á þessu vorþingi og koma því í þjóðaratkvæðagreiðslu? (Gripið fram í.)