140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

lífeyrissjóðirnir og skuldir heimilanna.

[15:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gagnrýnt mjög hugmyndir ríkisstjórnarinnar um þátttöku lífeyrissjóðanna vegna afskrifta á lánum til heimilanna. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur m.a. falið lögfræðingi samtakanna að hefja málsókn gegn ríkinu vegna skattlagningar á lífeyrissjóði. Gangi hugmyndir ríkisstjórnarinnar eftir má reikna með því að þetta hafi í för með sér skerðingu á lífeyrisréttindum þeirra sem njóta réttinda frá almennu lífeyrissjóðunum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina og hvort hugmyndin sé sú að sama skerðing muni ganga yfir þá sem eiga réttindi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, til jafns við það sem gerist hjá þeim sem eiga lífeyrisréttindi í almenna kerfinu.

Fram hefur komið að um 28–30 milljarða vanti á ári inn í lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna næstu 30 árin. ASÍ hefur sagt að þetta sé svo há upphæð að hún ógni afkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga og þar með velferðarkerfisins. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra hlýtur því að hafa hugmyndir um hvort skerðingin eigi gangi jafnt yfir alla, hvort sem þeir njóta lífeyrisréttinda sem opinberir starfsmenn eða eru í almenna kerfinu. Gæta verður þess líka að þeir sem njóta bóta úr almenna kerfinu greiða það með skattpeningum sínum að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna skerðast ekki.

Mig langar einnig að biðja hæstv. ráðherra að svara spurningu varðandi auðlegðarskatt. Nú eru lífeyrissjóðir landsmanna mismunandi. Margir eiga sinn sjóð í fasteignum sínum, hafa á starfsævinni náð að öngla saman einhverjum eignum, m.a. fasteignum eða sparifé, en lenda í því í dag að fá á sig svokallaðan auðlegðarskatt. Við höfum dæmi um að fólk þurfi jafnvel að selja eignir sínar til að hafa efni á því að borga þann skatt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað að rétt væri að þeir sem eiga mikil lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóðunum borguðu líka auðlegðarskatt. Það væri reiknað inn í þann skattstofn sem ríkisstjórnin kallar auðlegð, sem er kannski ekki nema ævisparnaður hjá mjög mörgum en liggur hjá mörgum opinberum starfsmönnum og öðrum sem hafa greitt mikið inn í lífeyrissjóði sem inneign sem greidd er út eftir starfsævina.