140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

lífeyrissjóðirnir og skuldir heimilanna.

[15:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Allar afskriftir sem lífeyrissjóðirnir þurfa að gera á eignum sínum hljóta að skerða réttindi þeirra sem í sjóðunum eiga, það eru þá peningar sem eru ekki notaðir til að greiða út lífeyri. Það gefur því augaleið að þetta hlýtur að koma við lífeyrissjóðina og hefur auðvitað meðal annars verið gagnrýnt þess vegna.

Spurningin var hvort sú hugsun væri ráðandi hjá hæstv. ráðherra að hið sama gengi yfir alla ef skerðing kæmi til, hið sama gengi yfir þá sem nytu lífeyrisréttinda sem opinberir starfsmenn, og ég bið hann að svara því.

Við vitum alveg hvernig það er með auðlegðarskattinn. Við borgum tekjuskatt af lífeyrisgreiðslum okkar (Forseti hringir.) þegar við fáum hann greiddan út. Spurningin snerist ekki um það heldur hvort taka ætti þetta sem reikningsstofn inn í auðlegðarskattinn eins og gert er hjá mörgum einstaklingum og fjölskyldum út um allt land. En hæstv. ráðherra hafnar þeirri leið, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sem sennilega á ein mestu réttindi sjálfur í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, (Forseti hringir.) nema sennilega hátt í 200 millj. kr. ásamt hæstv. forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Þau vilja ekki skerða hár á sínu höfði, þau vilja ekki skera neitt af sinni sneið en (Forseti hringir.) það er allt í lagi að taka auðlegðarskatt af einhverjum öðrum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)